Til baka

Niðurfelling úthafsheimilda

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) skiptir heiminum í svæði. ICAO NAT Region er það svæði sem íslenska flugstjórnarsvæðið (Reykjavik CTA) heyrir undir en þar eru að auki flugstjórnarsvæðin Gander, Polaris Bodo, Scottish, Shanwick, New York and Santa Maria.

Flugstjórnarsvæði sem tilheyra NAT svæðinu krefja flugmenn um að verða sér út um sérstaka úthafsheimild til að fljúga innan svæðisins. Flugmenn þurfa að fá þessa heimild áður en flogið er inn í svæðið eða farið á loft frá flugvelli innan þess. Þetta verklag var innleitt til að tryggja örugga og afkastamikla þjónustu við hið mikla flæði umferðar sem flýgur um NAT svæðið. Þegar verklagið var sett var kögunardrægi afar takmarkað og aðal fjarskiptaleið flugumferðarstjóra við flugvélar var með HF í gegnum fjarskiptamiðstöðvar.

NAT regions
NAT regions

Undanfarin ár hefur orðið stórtæk þróun í samskiptum, leiðsögu og kögun sem hafa gert veitendum flugleiðsöguþjónustu í NAT svæðinu kleift að bæta öryggi og þjónustu í svæðinu og minnka aðskilnað. Þessi tækni innifelur:

  • Samskipti – notkun CPDLC og þar með talin staðfesting á staðsetningu flugvéla með notkun skeyta þar sem beðið er um staðfestingu flugleiðar. Einnig hefur Isavia ANS látið setja upp VHF fjarskiptastöðvar á suður Grænlandi og þannig eru fjarskipti einnig tryggari en áður.
  • Kögun – notkun ADS-C og ADS-B. Öll svæðin fá nú rauntímaupplýsingar um staðsetningu flugvéla í gegnum ADS-B. Einnig eru ADS-C samningar notaðir til að senda upplýsingar um næstu og þarnæstu vörðu á flugleið vélar.
  • Bætt rafræn samskipti milli flugstjórnarmiðstöðva.

Stjórn NAT svæðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að tækniþróun sé komin á það stig að ekki sé lengur þörf á úthafsheimildum.

NAT Region hefur verið með vinnuhóp í gangi Oceanic Clearance Removal Project Team þar sem hafa setið þrír fulltrúar frá Isavia ANS. Þessi hópur hefur samræmt innleiðinguna innan NAT Region í samráði við notendur loftrýmisins.

Einnig fylgir breyting á Lost Communication Procedures innan NAT Region sem er meira í takt við reglur sem gilda annars staðar í heiminum, breytingin er auglýst í AIP ICELAND.

Breytingin nær til allra flugvéla sem fljúga um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið. Breyting er á verklagi allra flugumferðarstjóra í Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og flugturnunum á Reykjavíkur-, Akureyrar- og Keflavíkurflugvelli. Auk flugfjarskiptamanna Iceland Radio og flugradíómanna út um land við að bera í milli heimildir.

Hér má sjá myndband sem NATS útbjó til kynningar:

Höfundur: Steinunn Arna Arnardóttir